Félag læknisfræðilegra eðlisfræðinga á Íslandi
Félag læknisfræðilegra eðlisfræðinga á Íslandi var stofnað 9. mars 2023. Stofnmeðlimir eru 16 talsins og koma úr ýmsum áttum en eiga það sameiginlegt að hafa lært og starfað á sviði læknisfræðilegrar eðlisfræði.
Læknisfræðileg eðlisfræði er undirgrein hagnýttrar eðlisfræði sem snýr helst að notkun jónandi geislunar í læknisfræðilegum tilgangi en einnig að myndgreiningartækni í víðari skilningi. Jónandi geislun er nýtt bæði til greiningar og meðferðar, t.d. í röntgen- og tölvusneiðmyndatöku, jáeindaskönnun og geislameðferð.
Tilgangur félagsins er að styrkja faglegt starf læknisfræðilegra eðlisfræðinga á Íslandi. Önnur markmið félagsins eru að efla þjálfun, menntun og samskipti innan starfsgreinarinnar hér á landi, auk þess að stuðla að innlendu og alþjóðlegu samstarfi innan greinarinnar.
Stjórn félagsins var kosin á stofnfundi 9. mars 2023:
Hanna Björg Henrysdóttir, deildarstjóri Geislameðferðardeildar Landspítalans (formaður)
Eyjólfur Guðmundsson, Geislavörnum ríkisins (gjaldkeri)
Gauti Baldvinsson, Geislameðferðardeild Landspítalans (ritari)
Edda Lína Gunnarsdóttir, Geislavörnum ríkisins (meðstjórnandi)
Jakobína Marta Grétarsdóttir, Svíþjóð (meðstjórnandi)